Loading...
Larger font
Smaller font
Copy
Print
Contents

Frá Ræðustóli Náttúrunnar

 - Contents
  • Results
  • Related
  • Featured
No results found for: "".
  • Weighted Relevancy
  • Content Sequence
  • Relevancy
  • Earliest First
  • Latest First
    Larger font
    Smaller font
    Copy
    Print
    Contents

    “Sælir eru syrgjendur, því að þeir munu huggaðir verða.”

    Sú hrygð, sem hjer er talað um, er hin sanna hrygð yfir syndinni. Jesús segir: “Þegar jeg verð hafinn frá jörðu, mun jeg draga alla til mín”, Jóh. 12,32. Þeim, sem dreginn er, svo að hann sjer Jesúm hafinn á krossinn, mun verða augljós syndugleiki mannsins. — Honum verður skiljanlegt, að það er syndin, sem var völd að húðstrýkingu og krossfestingu konungs dýrðarinnar. Hann sjer, að þótt hann hafi verið elskaður með ólýsanlegum kærleika, þá hefir líferni hans verið fult vanþakklætis og þrjósku. Hann hefir yfirgefið sinn besta vin og farið illa með hina dýrmætustu gjöf himinsins. Hann hefir krossfest Guðs son á ný og gegnumstungið hið blæðandi hjarta hans. Hann er skilinn frá Guði með syndadjúpi, og hann hryggist af sundurkrömdu hjarta. Í slíkri hrygð mun sálin hljóta huggun. Guð lætur oss sjá syndasekt vora, til þess að vjer flýjum til Krists og getum fyrir hann frelsast frá þrældómi syndarinnar og glatt oss í frelsi Guðs barna. Sanniðrandi getum vjer komið að krossinum og varpað þar frá oss syndum vorum. Orð Frelsarans hafa að geyma huggunarboðskap þeim til handa, sem verða fyrir missi eða eru aðþrengdir á einhvern hátt. Harmar vorir vaxa ekki upp af jörðunni. “Ekki langar” Guð til “að þjá nje hrella mannanna börn”, Harm. 3,33. Þegar hann sendir oss raunir og mótlæti, þá er það “oss til gagns, svo að vjer getum fengið heilagleik hans”, Hebr. 12,10. Þegar raunum, sem oss finnast sárar og þungar að bera, er tekið í trú, munu þær verða oss til blessunar. Hið þunga högg, sem sviftir oss jarðneskri gleði, mun verða ráð til þess að snúa augum vorum til himins. Hversu margir þeir eru, sem aldrei mundu hafa lært að þekkja Jesúm, ef mótlæti hefði ekki komið þeim til þess að leita huggunar hjá honum!FRN 19.2

    Raunir lífsins eru þjónar Guðs, ætlunarverk þeirra er að uppræta hið óhreina og óþýða í lunderni voru. Þegar þær eru að höggva til, máta og meitla, þegar þær eru að sljetta, jafna og fága, þá kennir sá til, sem fyrir því verður. Það er sárt að vera þrýst niður á slípunarhjólið meðan verið er að slípa, en þegar steinninn hefir þolað alt þetta, þá er hann líka orðinn hæfur til þess, að vera þar, sem honum hefir verið ætlaður staður í hinu himneska musteri. Meistarinn kostar ekki svo nákvæmu og rækilegu verki til, þegar um ónýtt efni er að ræða. Einungis hinir dýrmætu steinar hans eru höggnir til og fágaðir eftir stíl hallarinnar.FRN 21.1

    Drottinn mun vinna verk fyrir sjerhvern mann, er setur traust sitt á hann. Sá, sem er trúr, mun vinna dýrlega sigra, hljóta mikilsverða fræðslu og reynslu.FRN 23.1

    Vor himneski faðir gleymir aldrei þeim, sem hafa orðið fyrir mótlæti. Þegar Davíð gekk upp á Olíufjallið, lesum vjer, að “hann gekk grátandi og huldu höfði, og berfættur”. 2. Sam. 15,30. En Drottinn leit í náð til hans. Davíð var klæddur “sekk”, og samviskan ákærði hann. Hið ytra merki auðmýktarinnar bar vott um iðrun hans. Með tárum og sundurkrömdu hjarta bar hann málefni sitt fram fyrir Guð, og Drottinn yfirgaf ekki þjón sinn. Davíð var aldrei dýrmætari Guði kærleikans, heldur en þegar hann með samviskubiti flýði undan óvinum sínum, er voru eggjaðir til uppreistar af hans eigin syni. Drottinn segir: “Alla þá, sem jeg elska, þá tyfta jeg og aga; ver því kostgæfinn og gjör iðrun”. Op. 3,19. Kristur lyftir upp hinu iðrandi hjarta og göfgar hina hryggu sál, þangað til hún verður bústaður hans.FRN 23.2

    Hversu margir af oss hugsa ekki eins og Jakob á þrengingarstundinni! Vjer höldum, að vjer sjeum í óvinarhöndum, og vjer berjumst í blindni, þangað til kraftarnir eru að brotum komnir, án þess að hljóta huggun eða lausn. Þegar hin guðdómlega hönd snart hann á yfirnáttúrlegan hátt, er dagur var að renna, varð Jakobi það ljóst, að það var engill sáttmálans, sem hann hafði glímt við, og grátandi og ósjálfbjarga varpaði hann sjer í hinn eilífa kærleiksfaðm til þess að hljóta þá blessun, sem hjarta hans þráði. Einnig vjer, verðum að læra að skilja það, að reynslan er gagnleg, vjer verðum að læra að lítilsvirða ekki hirting Drottins, eða láta oss gremjast umvöndun hans.FRN 23.3

    “Sæll er sá maður, er Guð hirtir. . . . . Hann særir, og hendur hans græða. Úr sex nauðum frelsar hann þig, og í hinni sjöundu snertir þig ekkert ilt”. Job. 3,17—19. Jesús kemur með græðslu til sjerhvers, sem er særður. Þjáning, sorg, missir, er vjer höfum orðið fyrir, alt þetta getur nærvera hans ljett og bætt.FRN 25.1

    Guð langar ekki til að vjer sökkvum oss niður í langvarandi áhyggjur eða berum sífeldan harm í huga. Hann vill að vjer hefjum upp augu vor og skoðum kærleiksauglit sitt. Frelsarinn stendur mörgum við hlið, hverra augu eru svo döpruð af tárum, að þeir sjá hann ekki. Hann þráir að rjetta oss hönd sína, þráir að vjer horfum til hans í barnslegri trú og lofum honum að leiða oss. Hjarta hans er opið fyrir sorgum vorum, áhyggjum og raunum. Hann hefir elskað oss með eilífri elsku og umlukt oss miskunnsemi. Oss er óhætt að treysta honum, vjer ættum að hugsa um miskunnsemi hans liðlangan daginn. Hann þráir að lyfta sálunni frá daglegum áhyggjum og erfiðleikum upp í heimkynni friðarins.FRN 25.2

    Íhuga þetta, þú barn harma og þjáninga, og gleð þig í voninni! “Trú vor, hún er siguraflið, sem hefir sigrað heiminn”. 1. Jóh. 5,4.FRN 25.3

    Sælir eru þeir, sem gráta með Jesú af meðaumkun með heiminum í hörmum hans og syrgja yfir syndinni! Slík hrygð er ekki af eigingjörnum rótum runnin. Jesús syrgði og leið svo mikla sálarangist, að engin orð megna að lýsa. Misgjörðir mannanna krömdu hjarta hans. Með hinni ítrustu sjálfsafneitun og fórnfýsi vann hann óaflátanlega að því að lina þjáningar mannanna og ljetta byrðar þeirra, og hjarta hans fyltist harmi, er hann sá, hve ófúsir þeir voru að koma til hans til að hljóta lííið. Allir þeir, er feta í fótspor Krists, munu reyna hið sama. Þegar þeir verða hluttakandi í kærleika hans, munu þeir og verða þátttakendur með honum í starfi hans fyrir týndar sálir. Þeir verða hluttakendur í þjáningum Krists og munu einnig verða hluthafar í þeirri dýrð, er opinberast skal. Eins og þeir eru sameinaðir honum í starfi hans, eins og þeir drekka með honum þjáninga-bikarinn, svo munu þeir einnig verða hluthafar með honum í gleði hans.FRN 25.4

    Það var fyrir þrautir og þjáningar, að Jesús varð undirbúinn til þjónustunnar sem huggari. Hann hefir sjálfur gengið gegnum allar þrengingar mannlífsins. “Með því að hann hefir liðið, þar sem hans sjálfs var freistað, er hann fær um að fulltingja þeim, er verða fyrir freistingu”. Hebr. 2,18. Í þessari þjónustu getur sjerhver sá átt hlutdeild, sem genginn er inn í samfjelag písla hans. “Því að eins og þjáningar Krists koma í ríkum mæli yfir oss, þannig kemur og huggun vor í ríkum mæli fyrir Krist”. Drottinn hefir sjerstaka náð að veita hinum harmþrungnu, og sú náð hefir í sjer flóginn kraft til að mýkja og þíða hjörtun og sigra sálirnar. Kærleikur hans ryður brautina til hinnar harmþrungnu og sundurkrömdu sálar og verður græðslulyf þeim, er syrgja. “Faðir miskunnsemdanna og Guð allrar huggunar, huggar css í sjerhverri þrenging vorri, svo að vjer getum huggað aðra í hvaða þrenging sem er, með þeirri huggun, sem vjer höfum sjálfir af Guði hlotið”. 2. Kor.1. 5. 3. 4.FRN 27.1

    Larger font
    Smaller font
    Copy
    Print
    Contents