Loading...
Larger font
Smaller font
Copy
Print
Contents

Frá Ræðustóli Náttúrunnar

 - Contents
 • Results
 • Related
 • Featured
No results found for: "".
 • Weighted Relevancy
 • Content Sequence
 • Relevancy
 • Earliest First
 • Latest First

  “Sælir eru hógværir.”

  “Sælu”-yfirlýsingarnar koma í rjettri röð eftir hinum kristilega þroska mannsins, er kemur smátt og smátt. Sá, sem hefir fundið þörf sína á Kristi, sá, er harmað hefir yfir syndinni og verið með Kristi í skóla þjáninganna, mun læra hógværð af hinum guðdómlega kennara.FRN 27.2

  Umburðarlyndi og vægðarsemi, er menn verða fyrir mótgjörðum, var ekki í hávegum haft hjá heiðingjunum nje heldur Gyðingum. Þegar Móse, knúinn af Heilögum anda, sagði, að hann væri hógvær framar öllum mönnum á jörðu, kvað hann sig hafa þá eiginleika til að bera, er samtíðarmenn hans töldu engin meðmæli með hcnum, heldur þvert á móti slíkt, er verðskuldaði meðaumkun eða fyrirlitningu. En Jesús telur hógværðina sem einn hinn helsta eiginleika, er gjörir manninn hæfan fyrir ríki hans. Líf hans og lunderni birti hina guðdómlegu fegurð þessarar mikilsverðu dygðar.FRN 27.3

  Jesús, sem var ímynd Föðurins og ljómi dýrðar hans, “miklaðist ekki af því, að hann var Guði líkur, heldur lítillækkaði sjálfan sig og tók á sig þjóns mynd”. Fil. 2,6.7. Hann var fús að taka á sig alt böl mannanna barna og dvaldi meðal þeirra, ekki sem konungur, er krefst þess, að hann sje hyltur, heldur sem sá, er hefir það ætlunarverk að þjóna öðrum. Framkoma hans var laus við sjerhverja mynd hræsni og harðneskju. Eðli Frelsara heimsins var háleitara og göfugra en englanna; en hógværð og auðmýkt, er dró alla til sín, var sameinað hátign hans.FRN 28.1

  Frelsarinn lagði alt í sölurnar, og í engu af öllu þvi, er hann gjörði, kom sjálfselska í ljós. Hann lagði alla hluti í hönd Föðurins og var vilja hans undirgefinn í öllu. Þegar hann hafði því nær lokið ætlunarverki sínu hjer á jörðunni, gat hann sagt: “Jeg hefi gjört þig dýrlegan á jörðunni, með því að fullkomna það verk, sem þú fjekst mjer að vinna”. Og hann býður oss: “Lærið af mjer, því að jeg er hógvær og af hjarta lítillátur”. “Vilji einhver fylgja mjer, þá afneiti hann sjálfum sjer og taki upp kross sinn og fylgi mjer”. Jóh. 17,4; Matt. 11,29; 16,24. Látum sjálfselskuna víkja og ekki framar drotna yfir sálunni.FRN 28.2

  Sá, sem virðir Krist fyrir sjer í sjálfsafneitun hans og hógværð, hlýtur að verða að taka undir með Daníel, er hann segir, þegar hann sá einhvern líkan mannssyni: “Yfirlitur minn var til lýta umbreyttur”. Dan. 10,8. Það sjálfstæði og þeir yfirburðir, sem vjer hrósum oss af, koma þá í ljós í allri sinni viðurstygð, sem merki þess, að vjer sjeum þrælar Satans. Mannseðlið keppist jafnan við að svara fyrir sig og er reiðubúið til deilu; en sá, sem lærir af Kristi, hefir losað sig við sjálfselsku og eigingirni, við dramb og löngun til að láta á sjer bera og hefja sig yfir aðra, og í sálunni ríkir kyrð og rósemi. Maður leggur sig undir yfirráð Heilags anda. Þá finst oss ekki áríðandi að sitja í öndvegi. Vjer höfum enga löngun til að trana oss fram til að verða sjeðir af öðrum; vjer finnum, að mesti heiður vor er að sitja við fætur Frelsarans. Vjer mænum til Jesú og bíðum eftir því að hönd hans leiði oss og rödd hans tali til vor. Páll postuli hafði reynt, hvað þetta er; hann segir: “Jeg er krossfestur með Kristi. Sjálfur lifi jeg ekki framar, heldur lifir Kristur í mjer. En það sem jeg þó enn lifi í holdi, það lifi jeg í trúnni á Guðs son, sem elskaði mig og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir mig”. Gal. 2,20.FRN 28.3

  Þegar vjer tökum á móti Kristi og höfum hann sem daglegan gest í sálunni, þá mun friður Guðs, sem yfirgnæfir allan skilning, varðveita hjörtu vor og hugsanir í samfjelaginu við Krist Jesúm. Þótt Frelsarinn lifði í stríði og baráttu á jörðunni, var líf hans þó ríkt af innra friði. Meðan mótstöðumenn hans sátu stöðugt um líf hans, gat hann sagt: “Sá, sem sendi mig, er með mjer; ekki hefir hann látið mig einan, því að jeg gjöri ætíð það, sem honum er þóknanlegt”. Jóh. 8,29. Enginn reiðistormur af Satans hálfu eða manna gat truflað þetta rólega, fullkomna samfjelag við Guð; og hann segir við oss: “Frið læt jeg eftir hjá yður, minn frið gef jeg yður”. Jóh. 14,27. “Takið á yður mitt ok og lærið af mjer, því að jeg er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá skuluð þjer finna sálum yðar hvíld”. Matt. 11,29. Berið ok þjónustunnar með mjer Guði til dýrðar og til að lyfta mönnunum upp, og þá munuð þjer finna, að okið er gagnlegt og byrðin Ijett.FRN 29.1

  Það er sjálfselskan, sem eyðir friði vorum. Meðan maðurinn sjálfur lifir með öllu, er hann jafnan reiðubúinn til að verja sig gegn mótgjörðum og skapraunum; en þegar vjer erum dánir, og líf vort er fólgið með Kristi í Guði, þá tökum vjer oss ekki nærri, þótt vjer sjeum lítilsvirtir eða aðrir teknir fram yfir oss. Vjer munum vera daufir fyrir smán, blindir fyrir háði og móðgunum. “Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður; kærleikurinn öfundar ekki; kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sjer ekki upp; hann hegðar sjer ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin; harm reiðist ekki, tilreiknar ekki hið illa; hann gleðst ekki yfir órjettvísinni, en samgleðst sannleikanum; hann breiðir yfir alt, trúir öllu, vonar alt, umber alt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi”. I. Kor. 13,4—8.FRN 31.1

  Gæfa, sem sótt er í jarðneskar uppsprettur, er eins óstöðug og hinar breytilegu kringumstæður; en Krists friður er stöðugur og varanlegur. Hann er óháður sjerhverjum kringumstæðum í lífinu: jarðneskum fjármunum eða fjölda vina. Kristur er hin lifandi vatnslind, og sú hamingja, sem maður sækir til hans, getur aldrei brugðist.FRN 31.2

  Þegar hógværð Krists birtist á heimilinu, þá mun hún gjöra heimilisfólkið hamingjusamt. Hún eggjar ekki til þrætu, gefur ekki reiðisvar, heldur mildar hið æsta skap og breiðir út frá sjer blíðu og hlýju, sem allir verða varir við, er komast undir hin heillandi áhrif þess. Hvar sem hógværðin er, gjörir hún fjölskyldurnar hjer á jörðunni að hluta af hinni stóru fjölskyldu á hæðum.FRN 31.3

  Það væri miklu betra fyrir oss að líða fyrir rangar ákærur en að valda sjálfum oss þeirri pyndingu að gjalda óvinum vorum í sömu mynt. Andi hatursins og hefnigirninnar átti upptök sín hjá Satan og getur aðeins leitt til ills eins fyrir þann, sem elur hann. Auðmýkt hjartans, sú hógværð, sem er ávöxtur þess, að vjer erum í Kristi, er hinn sanni leyndardómur blessunarinnar. “Hann skreytir hina hógværu með sigri”. Sálm. 149,4. Hinir hógværu munu “landið erfa”. Það var sjálfsupphefðar-löngunin, sem flutti synd inn í heiminn, og leiddi það af sjer, að vorir fyrstu foreldrar mistu yfirráðin yfir hinni fögru jörðu, sem var riki þeirra. Það er með því að lítillækka sjálfan sig, að Kristur endurleysir það, sem glatast hefir á þennan hátt, og hann segir, að vjer skulum sigra, eins og hann sigraði. Op. 3,21. Fyrir auðmýkt og undirgefni getum vjer orðið samarfar hans þegar hinir “hógværu erfa landið”. Sálm. 37,11.FRN 31.4

  Sú jörð, sem hinum hógværu er heitin, verður ekki lík núverandi jörðu, sem er myrkvuð af skugga bölvunarinnar og dauðans. “En vjer væntum eftir fyrirheiti hans nýs himins og nýrrar jarðar, þar sem rjettlæti býr”. 2. Pjet. 3,13. “Og engin bölvun mun framar til vera, og hásæti Guðs og Lambsins, mun í henni vera, og pjónar hans munu honum þjóna”. Op. 22,3.FRN 33.1

  Þar verða engin vonbrigði, enginn harmur, engin synd. Enginn mun segja: Jeg er sjúkur. Þar verður engin jarðarför, enginn dauði, enginn skilnaður, ekkert harmþrungið hjarta; en Jesús mun verða þar, og friðurinn ríkja. Þar mun þá “ekki hungra og ekki þyrsta, og eigi skal breiskjuloftið og sólarhitinn vinna þeim mein, því að miskunnari þeirra vísar þeim veg og leiðir þá að uppsprettulindum”. Jes. 49, 10.FRN 33.2