Loading...
Larger font
Smaller font
Copy
Print
Contents
  • Results
  • Related
  • Featured
No results found for: "".
  • Weighted Relevancy
  • Content Sequence
  • Relevancy
  • Earliest First
  • Latest First
    Larger font
    Smaller font
    Copy
    Print
    Contents

    Kafli 2—Tími endalokanna

    Við lifum á tíma endalokanna. Tákn tímanna uppfyllast hratt og lýsa því yfir, að koma Krists sé nálæg, fyrir dyrum. Dagarnir, sem við lifum á eru alvarlegir og þýðingarmiklir. Smám saman en ákveðið er Andi Guðs dreginn frá jörðinni. Plágur og dómar leggjast nú þegar á þá, sem fyrirlíta náð Guðs. Voðaviðburðir á landi og sjó, upplausnin í þjóðfélaginu og stríðshljómurinn eru fyrirboðar ills. Þetta segir fyrir um komandi stórviðburði.BS 39.1

    Illu öflin sameina nú krafta sína og styrkja aðstöðu sína. Þau safna nú kröftum fyrir síðustu örlagastundina. Miklar breytingar munu bráðlega verða í heiminum og síðustu atburðirnir munu gerast skjótlega.BS 39.2

    Ástandið í heiminum sýnir, að örðugar tíðir eru alveg fyrir dyrum. Dagblöðin eru full af fyrirboðum hræðilegra átaka í náinni framtíð. Djörf rán eru tíð. Verkföll eru algeng. Þjófnaðir og morð eru framin um allt. Menn haldnir illum öndum stytta körlum, konum og litlum börnum aldur. Menn eru orðnir trylltir af glæpum og hvers konar myndir hins illa fá að ríkja.BS 39.3

    Óvininum hefur tekizt að umsnúa réttlætinu og að fylla hjörtu manna af ósk um eigingjarnan ávinning. „Og rétturinn er hrakinn á hæl og réttlætið stendur langt í burtu, því að sannleikurinn hrasaði á strætunum og hreinskilnin kemst ekki að.” Jes. 59, 14. Í stórborgunum býr múgur manns við örbirgð og eymd og skortir nær alveg mat, húsaskjól og klæði. En í sömu borgum eru til þeir, sem hafa meira en hjarta þeirra getur girnzt, sem búa við íburð og verja fjármunum sínum til húsa með dýru innbúi, til að skreyta sjálfan sig eða til þess, sem verra er, að seðja holdlegar girndir, eða til kaupa á tóbaki og víni og öðrum hlutum, sem skemma hæfileika heilans, koma huganum úr jafnvægi og saurga sálina. Óp sveltandi mannkyns berst upp til Guðs, á sama tíma og menn hrúga upp óstjórnlegum auði með alls konar ofríki og kúgun.BS 39.4

    Í nætursýn sá ég byggingar hækka hæð eftir hæð til himna. Ábyrgzt var, að byggingarnar væru eldtraustar og voru þær reistar til dýrðar eigendum þeirra og byggingameisturum. Bygg- ingar þessar risu upp hærra og hærra og í þær var dýrasta efni notað. Þeir, sem áttu þessar byggingar, spurðu sig ekki: „Hvernig get ég bezt vegsamað Guð?” Drottinn kom þeim ekki í huga.BS 39.5

    Þegar þessar háu byggingar komu upp, fögnuðu eigendur þeirra í metorðagirnd og stolti, að þeir áttu peninga til að nota til að uppfylla eigin óskir og vekja öfund nágrannanna. Mikið af fé því, sem þeir höfðu fjárfest þannig, höfðu þeir fengið með harðdrægni, með álögum á fátæka. Þeim gleymdist, að á himni er geymd skrá um hver viðskipti. Þar eru skráð hver óhrein viðskipti, hver óheiðarleg athöfn.BS 40.1

    Það næsta. sem mér bar fyrir augu, var viðvörun um eld. Menn litu á háar og að því er talið var eldtraustar byggingar og sögðu: „Þær eru algerlega öruggar.” En byggingarnar brunnu til kaldra kola eins og þær væru gerðar úr biki. Brunaliðið gat ekkert aðhafzt til að hindra eyðilegginguna. Brunaverðirnir gátu ekki stjórnað brunadælunum.BS 40.2

    Ætti engin breyting sér stað í hjörtum dramblátra og metorðagjarnra manna, var mér sagt, að menn myndu finna, er tími Drottins kemur, að höndin, sem hafði verið máttug til að bjarga, yrði einnig máttug til að eyða. Enginn mannlegur máttur getur stöðvað hönd Guðs. Ekkert það efni er hægt að nota við byggingu mannvirkja, er gæti verndað þau frá eyðileggingu, er hinn tilsetti tími Guðs kemur til að senda refsingu yfir menn fyrir að hafa lítilsvirt lög Guðs og fyrir eigingjarnan metnað.BS 40.3

    Það eru ekki margir, ekki einu sinni meðal menntamanna og stjórnmálamanna, sem skilja orsakir fyrir núverandi þjóðfélagsástandi. Þeir, sem eru við völd í ríkisstjórnum megna eigi að leysa vanda siðspillingar, fátæktar, örbirgðar og vaxandi glæpa. Árangurslaust berjast þeir við að koma viðskiptalífinu á öruggari grundvöll. Færu menn betur eftir fræðslu Guðs orðs, mundu þeir finna lausn á vandanum, sem þjakar þá.BS 40.4

    Ritningin lýsir heimsástandinu rétt fyrir endurkomu Krists. Um þá menn, sem með ráni og kúgun safna saman miklum auði, er þetta sagt: „Þér hafið fjársjóðum safnað á síðustu dögum. Sjá, laun verkamannanna, sem hafa slegið lönd yðar, þau er þér hafið haft af þeim, hrópa, og köll kornskurðarmannanna eru komin til eyrna Drottins hersveitanna. Þér hafið lifað í sællífi á jörðinni og í óhófi, þér hafið alið hjörtu yðar á slátrunardegi. Þér hafið sakfellt, þér hafið drepið hinn réttláta, hann stendur ekki í gegn yður.” Jak. 5, 3—6.BS 40.5

    En hver les viðvaranirnar, sem felast í táknum tímanna, sem hröðum skrefum uppfyllast? Hvaða áhrifum verða heimsmenn fyrir? Hvaða breyting sést á afstöðu þeirra? Eigi meiri en sást á afstöðu íbúanna í heimi Nóa. Menn fyrir flóðið voru önnum kafnir við veraldleg viðskipti og sællífi og „vissu (þeir) eigi af fyrr en flóðið kom og hreif þá alla burt.” Matt. 24, 39. Þeim höfðu verið sendar viðvaranir að ofan, en þeir vildu eigi hlýða á. Og í dag virðir heimurinn að vettugi viðvörunarraust Guðs og skundar hröðum skrefum til eilífrar eyðileggingar.BS 40.6

    Heimurinn er í uppnámi af hernaðaranda. Spádómurinn í ellefta kapítula Daníelsbókar hefur nær alveg uppfyllzt til fulls. Bráðlega munu erfiðleikar þeir, sem talað er um í spádómunum, eiga sér stað.BS 41.1

    „Sjá, Drottinn tæmir jörðina og eyðir hana, hann umhverfir ásjónu hennar og tvístrar ibúum hennar. . . . Því að þeir hafa brotið lögin, brjálað boðorðunum og rofið sáttmálann eilífa. Þess vegna eyðir bölvun jörðinni og íbúar hennar gjalda . . . Gleðihljóð bumbnanna er þagnað, hávaði hinna glaðværu hættur, gleðiómur gígjunnar þagnaður.” Jes. 24, 1—8.BS 41.2

    „Æ, sá dagur. Því að dagur Drottins er nálægur og hann kemur sem eyðing frá hinum almáttka.” Jóel 1, 15.BS 41.3

    „Ég leit á jörðina og sjá: hún var auð og tóm, og upp til himins og ljós hans var slokknað. Ég leit á fjöllin, og sjá: þau nötruðu, og allar hæðirnar, þær bifuðust. Ég litaðist um, og sjá: þar var enginn maður, og allir fuglar himinsins voru flúnir. Ég litaðist um og sjá: aldingarðurinn var orðinn að eyðimörk og allar borgir hans gjöreyddar.” Jer. 4, 23—26.BS 41.4

    „Vei, mikill er sá dagur, hann á ekki sinn líka og angistartími er það fyrir Jakob, en — hann mun frelsast frá því.” Jer. 30, 7.BS 41.5

    Eigi hafa allir í heiminum tekið afstöðu með óvininum, gegn Guði. Eigi eru allir orðnir óhlýðnir. Það eru fáeinir trúir, sem eru sannir Guði, því Jóhannes ritar: „Þeir er varðveita boð Guðs og trúna á Jesúm.” Op. 14, 12. Fljótlega mun færast grimmd í baráttuna milli þeirra, sem þjóna Guði og hinna, sem ekki gera það. Fljótlega mun allt það, sem hægt er að hrista, verða hrist, svo að það, sem eigi er hægt að hrista geti verið eftir.BS 41.6

    Satan er iðinn við að rannsaka Biblíuna. Hann veit að hann hefur nauman tíma og hann reynir í öllum greinum að hamla gegn starfi Guðs á jörðinni. Það er ógerningur að gefa nokkra hugmynd um reynslu fólks Guðs, sem á lífi verður á jörðinni, þegar saman blandast himnesk dýrð og endurtekning á ofsóknum fortíðarinnar. Það mun ganga í ljósinu, sem berst frá hásæti Guðs. Fyrir hjálp engla mun verða stöðugt samband milli himins og jarðar. Og Satan, umkringdur af illum englum, mun segjast vera Guð, og vinna alls konar kraftaverk til að blekkja, ef verða mætti, jafnvel útvalda. Fólk Guðs mun ekki finna öryggi í því að gera kraftaverk, því Satan mun sýna eftirlíkingar þeirra kraftaverka, sem gerð verða. Fólk Guðs, reynt og prófað, mun finna kraft sinn í tákninu. sem talað er um í 2. Mós. 31, 12—18. Það á að taka afstöðu með hinu lifandi orði: „Ritað er.” Þetta er eini grundvöllurinn, sem það getur örugglega staðið á. Þeir, sem hafa rofið sáttmála sinn við Guð, munu á þeim degi vera guðvana og vonlausir.BS 41.7

    Þeir, sem tilbiðja Guð munu einkennast sérstaklega af virðingu sinni fyrir fjórða boðorðinu, þar sem það er táknið um sköpunarmátt Guðs og vitnisburður um, að hann eigi kröfu á lotningu mannsins og undirgefni. Óguðlegir munu einkennast af tilraunum sínum til að rifa niður minnismerki Skaparans og að vegsama tilskipun Rómar. Í deilunnar rás mun allur kristindómur skiptast í tvo stóra hópa, þá, sem varðveita boð Guðs og trúna á Jesúm og þá, sem tilbiðja dýrið og líkneski þess og fá á sig merki þess. Þó að ríki og kirkja muni sameina krafta sína til að neyða alla „smáa og stóra, auðuga og fátæka, og frjálsa og ófrjálsa” til að taka á sig merki dýrsins, mun fólk Guðs samt ekki taka það á sig. (Op. 13, 16.) Spámaðurinn á Patmos sér „þá, sem unnið höfðu sigur á dýrinu og á líkneski þess og á tölu nafns þess, standa við glerhafið og halda á hörpum Guðs” og syngja söng Móse og lambsins. (Op. 15, 2)BS 42.1

    Hræðileg reynsla og raunir bíða fólks Guðs. Hernaðarandi grípur um sig meðal þjóðanna frá einum enda jarðar til annars. En þegar hörmungartíminn, sem í vændum er, stendur sem hæst — hörmungartíð, slík er aldrei fyrr mun verið hafa, síðan menn urðu fyrst til — mun Guðs útvalda fólk standa óhaggað. Satan og hersveitir hans geta eigi eytt því, þar sem englar, er af bera í styrkleika, munu vernda það.19T, bls. 11-17.BS 42.2

    Larger font
    Smaller font
    Copy
    Print
    Contents