Loading...
Larger font
Smaller font
Copy
Print
Contents
 • Results
 • Related
 • Featured
No results found for: "".
 • Weighted Relevancy
 • Content Sequence
 • Relevancy
 • Earliest First
 • Latest First
  Larger font
  Smaller font
  Copy
  Print
  Contents

  Kafli 20—Hjúskapur

  Af manninum gerði Guð konu, sem átti að vera félagi og aðstoð fyrir hann, til að vera eitt með honum, til að gleðja hann og örva og blessa hann og hann átti að vera í staðinn hennar sterka hjálp. Allir þeir, sem ganga til hjúskapar í heilögum tilgangi — eiginmaðurinn til að öðlast hreina ást konunnar, og eiginkonan til að mýkja og bæta lunderni eiginmanns síns og gefa því fyllingu — uppfylla tilgang Guðs fyrir þau.BS 140.1

  Kristur kom ekki til þess að eyða þessari stofnun [hjúskapnum], heldur til þess að endurreisa hana til upprunalegrar helgunar og tignar. Hann kom til þess að endurreisa hina siðferðilegu mynd í manninum og hóf starf sitt með því að helga hjúskaparsambandið.BS 140.2

  Hann, sem gaf Adam Evu sem hjálp, framkvæmdi fyrsta kraftaverk sitt í brúðkaupsveizlu. Í brúðkaupssalnum þar sem vinir og venzlamenn fögnuðu saman, hóf Kristur opinbert starf sitt. Þar helgaði hann hjúskapinn, og viðurkenndi hann sem stofnun, sem hann sjálfur hafði sett á stofn. Hann sagði svo fyrir, að karlar og konur ættu að tengjast í heilögum hjúskap til að ala upp börn þar sem fjölskylduliðarnir, krýndir heiðri, ættu að vera virtir sem fjölskylduliðar hið efra.

  BS 140.3

  Brúðkaupið ætti að vera blátt áfram og fullt af gleði

  Hinn guðlegi kærleikur, sem stafar frá Kristi, eyðir aldrei mannlegum kærleika, heldur felur hann í sér. Með honum hreinsast og fágast, tignast og göfgast mannlegur kærleikur. Mannlegur kærleikur getur aldrei borið hinn dýrmæta ávöxt sinn, fyrr en hann sameinast guðlegu eðli og er þjálfaður til að vaxa í átt til himins. Jesús vill sjá hamingjusöm hjónabönd, hamingjusöm fjölskyldubönd.BS 140.4

  Ritningarnar segja,að bæði Jesús og lærisveinar hans hafi verið kallaðir til þessarar brúðkaupsveizlu [í Kana]. Kristur hefur ekki gefið kristnum mönnum neitt leyfi til að segja, þegar þeim er boðið í brúðkaup: Við ættum ekki að vera viðstaddir svo fagnaðarríka stund. Með því að vera viðstaddur þessa hátíð kenndi Kristur, að hann vildi, að við fögnuðum með þeim, sem fagna yfir því að halda fyrirmæli hans. Hann dró aldrei úr því að stofnað væri tii saklausra hátíðahalda meðal manna, þegar þau væru haldin í samræmi við lög himinsins. Það er rétt, að fylgjendur Krists sæki þá samfundi, sem hann heiðraði með nærveru sinni. Eftir að hafa verið í þessari veizlu, var Kristur við margar aðrar slíkar og helgaði þær með nærveru sinni og fræðslu.BS 140.5

  Það er engin ástæða til þess að gera mikið úr þessu [veizlunni] eða láta á henni bera, jafnvel þó að hlutaðeigandi séu fullkomlega hæfir fyrir hvort annað.BS 141.1

  Mér hefur ávallt virzt það mjög óviðeigandi að sjá háværa gleði og kátínu og látalæti tengd brúðkaupinu. Nei. Það er regla af Guði skipuð, sem við eigum að líta á með mjög alvarlegum augum. Fjölskylduböndin hér neðra eiga að sýna, hvernig þau munu verða í fjölskyldunni á himnum hið efra. Dýrð Guðs á ávallt að vera höfð í fyrirrúmi.1AH, bls. 99-101:

  BS 141.2

  Ráð til nýgiftra

  Kæri bróðir og systir: Þið hafið sameinazt í ævilöngum sáttmála. Uppeldi ykkar í hjúskapnum hefur byrjað. Fyrsta árið í hjúskapnum er reynsluár, árið sem eiginmaður og eiginkona læra á hin ólíku skapgerðareinkenni hvors annars, eins og barn lærir lexíur sínar í skóla. Á þessu fyrsta ári hjúskaparins skuluð þið ekki hafa neina kapítula, sem munu varpa skugga á framtíðarhamingju ykkar.BS 141.3

  Að öðlast tilhlýðilegan skilning á hjúskaparsambandinu tekur alla ævina. Þeir, sem giftast, innritast í skóla, sem þeir brautskrást aldrei úr í þessu lífi. Bróðir minn, tími konu þinnar og styrkur og hamingja er nú tengt þér. Áhrif þín á hana kann að vera ilmur af lífi til lífs eða af dauða til dauða. Gættu þess vandlega að skemma ekki líf hennar.BS 141.4

  Systir mín, þú átt nú að læra þínar fyrstu hagnýtu lexíur í ábyrgð þinni í hjúskapnum. Vertu viss um að læra þessar lexíur trúlega dag frá degi. Vertu ekki óánægð eða önuglynd. Þráðu ekki auðvelt og óvirkt líf. Vertu stöðugt á varðbergi gegn því að láta undan eigingirninni.BS 141.5

  Í lífstíðarsambandi ykkar á kærleikur ykkar að stuðla að hamingju hvors annars. Hvort um sig á að vinna að hamingju hins. Þetta er vilji Guðs varðandi ykkur. En þó að þið eigið að samlagast sem eitt, á hvorugt ykkar að missa sitt einstaklingseðli fyrir hinu. Guð á einstaklingseðli ykkar. Þið eigið að spyrja hann: Hvað er rétt? Hvað er rangt? Hvernig get ég bezt uppfyllt tilganginn með sköpun minni? „Og ekki eruð þér yðar eigin, því að þér eruð verði keyptir. Vegsamið því Guð í líkama yðar.” I. Kor. 6, 19. 20. Kærleikur ykkar til þess, sem mannlegt er, á að vera óæðri kærleika ykkar til Guðs. Kærleikur ykkar á að beinast fyrst og fremst til hans, sem gaf líf sitt fyrir okkur. Þegar sálin lifir fyrir Guð, sýnir hún honum sinn bezta og æðsta kærleika. Beinist mest af kærleika þínum til hans, sem dó fyrir þig? Ef svo er mun kærleikur ykkar til hvors annars vera eftir vilja himinsins.BS 141.6

  Kærleikurinn getur verið tær sem kristall og fagur í hreinleika sínum, en samt verið grunnur sökum þess að hann hefur ekki verið prófaður og reyndur. Gerðu Krist fyrstan og síðastan og beztan í öllu. Líttu stöðugt til hans og þá mun kærleikur þinn til hans verða dýpri og sterkari með hverjum deginum, ef hann beygir sig undir prófraun reynslunnar. Þegar svo kærleikur þinn til hans eykst mun kærleikur ykkar til hvors annars verða dýpri og sterkari. „En allir vér, sem með óhjúpuðu andliti sjáum endurskinið af dýrð Drottins, ummyndumst til hinnar sömu myndar, frá dýrð til dýrðar.” 2. Kor. 3, 18. Þú hefur nú skyldum að sinna, sem þú hafðir ekki fyrir giftinguna. „Íklæðist því . . . hjartagróinni meðaumkvun, góðvild, auðmýkt, hógværð, langlyndi.” „Ástundið í breytni yðar kærleika, að sínu leyti eins og Kristur elskaði yður.” Íhugið vandlega eftirfarandi leiðbeiningu. „Verið hver öðrum undirgefnir í ótta Krists: Konurnar eiginmönnum sínum eins og það væri Drottinn, því að maðurinn er höfuð konunnar, að sínu leyti eins og Kristur er höfuð safnaðarins, hann sem er frelsari líkama síns. En eins og söfnuðurinn er undirgefinn Kristi, svo og konurnar mönnum sínum. Þér menn, elskið konur yðar að sínu leyti eins og Kristur elskaði söfnuðinn og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hann.” Kól. 3, 12; Efes. 5, 2, 22—25.BS 142.1

  Hjúskapurinn, sem er lífstíðarsamband, er tákn um sambandið milli Krists og safnaðar hans. Hugarfarið, sem Kristur sýnir söfnuði sínum, er það hugarfar, sem eiginmaður og eiginkona eiga að sýna hvort öðru.BS 142.2

  Hvorki eiginmaður né eiginkona eiga að æskja yfirráða. Drott¬inn hefur sett þá meginreglu, sem á að leiða í þessu efni. Eiginmaðurinn á að elska konu sína eins og Kristur elskar söfnuðinn. Og konan á að virða eiginmann sinn. Bæði eiga að rækta með sér hugarfar vingjarnleikans og vera ákveðin í því að hryggja aldrei né særa hvort annað.BS 142.3

  Bróðir minn og systir, þið hafið bæði sterkan vilja. Þið getið gert þennan hæfileika að mikilli blessun eða mikilli bölvun ykkur sjálfum og þeim, sem þið komizt í snertingu við. Reynið ekki að neyða hvort annað til þess að láta að óskum hins. Þetta getið þið ekki gert og samtímis haldið kærleika hvors annars. Að halda fast í eigin vilja skemmir hamingju heimilisins. Látið ekki deilur ríkja í hjúskap ykkar. Ef þið gerið það, munuð þið bæði vera óhamingjusöm. Verið vingjarnleg í tali og ljúf í athöfn og fús að láta af eigin ósk. Gætið vel orða ykkar, því þau hafa voldug áhrif bæði til góðs og ills. Leyfið ekki hvössum tón að koma inn í líf ykkar. Færið inn í lífstíðarsamband ykkar ilm þess að vera Kristi líkur.BS 142.4

  Áður en maður gengur til sambands, sem er eins náið og hjúskapurinn, ætti hann að læra að stjórna sjálfum sér og eiga skipti við aðra.BS 143.1

  Bróðir minn, vertu vingjarnlegur, þolinmóður, og umburðarlyndur. Minnstu þess, að konan þín hefur tekið á móti þér sem eiginmanni, ekki til þess að þú getir ráðið yfir henni, heldur til þess að þú getir verið hjálparhella hennar. Vertu aldrei ráðríkur né fyrirskipandi. Beittu ekki sterkum vilja þínum til þess að neyða konu þína að gera það, sem þú óskar. Minnstu þess, að hún hefur vilja og að hún kann að hafa óskir um að fara sínu fram, jafn mikið og þú óskar, að þinn vilji verði. Minnstu þess líka, að þú hefur þau forréttindi, að hafa meiri reynslu. Vertu hugsunarsamur og kurteis. „En sú speki, sem að ofan er, hún er í fyrsta lagi hrein, því næst friðsöm, ljúfleg, sannsýn, full miskunnar og góðra ávaxta, óhlutdræg, hræsnislaus.” Jak. 3, 17.BS 143.2

  Minnstu þess, kæri bróðir minn og systir, að Guð er kærleikur og fyrir náð hans getur ykkur tekizt að gera hvort annað hamingjusamt eins og þið hétuð í hjúskaparheiti ykkar. Og í styrk endurlausnarans getið þið unnið af vizku og krafti til að hjálpa einhverjum, sem villtur er, til að komast á rétta vegu aftur gagnvart Guði. Hvað er það, sem Kristur getur ekki gert? Hann er fullkominn að vísdómi, réttlæti og kærleika. Einangrið ykkur ekki þannig, að þið séuð ánægð með að úthella öllum kærleika ykkar yfir hvort annað. Notið hvert tækifæri til að stuðla að hamingju þeirra, sem í kring um ykkur eru og tjá þeim ástúð ykkar. Vingjarnleg orð, samúð í augnaráði, eða viðurkenning yrði margri einmana sál, sem er að berjast áfram, sem bikar af köldu vatni handa þyrstum manni. Glaðvær orð og vinarhót mundu gera mikið til þess að létta byrðar þær, sem hvíla á þreyttum herðum. Það er í óeigingjörnu starfi, sem hina sönnu hamingju er að finna. Og hvert orð og dáð slíkrar þjónustu er skráð í bækur himnanna sem væri það gert fyrir Krist. „Svo framarlega sem þér hafið gjört þetta einum minna minnstu bræðra,” segir hann, „þá hafið þér gjört mér það.” Matt. 25, 40.BS 143.3

  Lifið í sólarbirtu kærleika frelsarans. Þá munu áhrif ykkar vera blessun fyrir heiminn. Látið Anda Krists stjórna ykkur. Látið lögmál vingjarnleikans vera ávallt á vörum ykkar. Umburðarlyndi og óeigingirni einkenna orð og athafnir þeirra, sem eru endurfæddir til þess að lifa hinu nýja lífi í Kristi. 27T, bls. 45-50.BS 143.4

  Larger font
  Smaller font
  Copy
  Print
  Contents