Loading...
Larger font
Smaller font
Copy
Print
Contents
  • Results
  • Related
  • Featured
No results found for: "".
  • Weighted Relevancy
  • Content Sequence
  • Relevancy
  • Earliest First
  • Latest First
    Larger font
    Smaller font
    Copy
    Print
    Contents

    Kafli 19—Giftist ekki vantrúuðum

    Í hinum kristna heimi er furðulegt og skelfilegt sinnuleysi gagnvart kenningum Guðs orðs, hvað snertir hjúskap kristinna og vantrúaðra. Margir, sem segjast elska og óttast Guð, vilja fylgja löngun síns eigin hjarta, fremur en að taka ráðleggingar óendanlegs vísdóms. Í efni, sem mjög náið snertir hamingju og velferð beggja aðila, bæði í þessum heimi og næsta, er skynsemi, dómgreind og ótta Guðs ýtt til hliðar og blindum tilfinningum og brjózkum vilja leyft að taka stjórnina.BS 135.1

    Karlar og konur, sem annars eru skynsöm og samvizkusöm, loka eyrum sínum við ráðleggingum. Þau daufheyrast við hvatningarorðum og bænum vina og skyldmenna og þjóna Guðs. Þegar látin er í ljós viðvörun eða þörf sé aðgæzlu, er slíkt skoðað sem ósvífin afskiptasemi. Vinur, sem er nógu trúr til bess að vera með fortölur, er skoðaður sem óvinur. Allt þetta er eins og Satan vill hafa það. Hann spinnur seiðvef sinn um sálina og hrífur hana og töfrar. Skynsemin lætur tauma sjálfstjórnarinnar falla á svíra girndarinnar. Vanheilög ástríða ræður þar til fórnarlambið seint og um síðir vaknar til lífs í örbirgð og fjötrum. Þessi mynd er ekki ímyndun ein, heldur eru taldar hér upp staðreyndir. Helgun Guðs er ekki veitt þeim samböndum, sem hann hefur greinilega bannað.BS 135.2

    Drottinn bauð Ísrael til forna að mægjast ekki við skurðgoðadýrkendur i kring: „Og eigi skalt þú mægjast við þær. Þú skalt hvorki gefa sonum þeirra dætur þínar né heldur taka dætur þeirra til handa sonum þínum.” Ástæðan er gefin. Óendanleg vizka, sem sá fyrir afleiðingar slíkra sambanda, lýsir yfir: „Því að þær mundu snúa sonum þínum frá hlýðni við mig og koma þeim til að dýrka aðra Guði. Mundi reiði Drottins þá tendrast í gegn yður og hann eyða þér skyndilega.” „Því að þú ert Drottni, Guði þínum, helgaður lýður. Þig hefur Drottinn, Guð kjörið til að vera eignarlýður hans umfram allar þjóðir, sem eru á yfirborði jarðarinnar.”BS 135.3

    Í Nýja testamentinu eru svipuð bönn við mægðum kristinna og óguðlegra. Postulinn Páll segir í fyrra bréfi sínu til Korintu- manna: „Konan er bundin á meðan maður hennar er á lífi. En er maðurinn deyr, er henni frjálst að giftast hverjum sem hún vill,aðeins að það sé trúaður maður.”Aftur skrifar hann í síðara bréfi sínu. „Gangið ekki undir ósamkynja ok með vantrúuðum. Því að hvað er sameiginlegt með réttlæti og ranglæti? Eða hvaða samfélag hefur ljós við myrkur? Og hver er samhljóðan Krists við Belíal? Eða hver hlutdeild er trúuðum með vantrúuðum? Og hvað á musteri Guðs við skurðgoð saman að sælda? Því að vér erum musteri lifanda Guðs, því að eins og Guð hefur sagt, ég mun búa hjá þeim, og ég mun vera Guð þeirra og þeir munu vera lýður minn. Þess vegna farið burt frá þeim og skiljið yður frá þeim, segir Drottinn og snertið ekkert óhreint, og ég mun taka yður að mér, og ég mun vera yður faðir, og þér munuð vera mér synir og dætur, segir Drottinn alvaldur.”BS 135.4

    Aldrei ætti Guðs fólk að voga sér út á bannsvæði. Guð hefur bannað mægðir milli trúaðra og vantrúaðra. En of oft fylgir óendurfætt hjarta eigin óskum sínum og stofnað er til mægða, sem Guð hefur ekki helgað. Sökum þessa eru margir karlar og konur án vonar og án Guðs í heiminum. Hinar göfugu langanir þeirra eru dauðar. Fyrir ákveðna rás viðburða eru þau nú föst í neti Satans. Þeir, sem stjórnast af ástríðum og tilfinningum, munu skera upp beizka uppskeru í þessu lífi og stefna þeirra kann að leiða til þess að sálir þeirra glatist.BS 136.1

    Þeir, sem játa sannleikann, traðka á vilja Guðs með því að mægjast við vantrúaða. Þeir missa af hylli hans og verður erfitt um að iðrast. Hinn vantrúaði kann að hafa frábærleg siðferðisleg einkenni, en sú staðreynd, að hann eða hún hefur ekki svarað kröfum Guðs og hefur vanrækt svo mikið hjálpræði, er nægileg ástæða til þess að til slíks sambands ætti ekki að ganga. Lunderni hins vantrúaða kann að vera líkt lunderni unga mannsins, sem Jesús sagði við: „Eins er þér vant.” Það var eitt sem skorti.

    BS 136.2

    Mega tveir menn verða samferða, nema þeir séu sammála?

    Sú afsökun er stundum sett fram, að hinn vantrúaði sé hliðhollur trúarbrögðunum og sé allt það, sem hægt sé að óska sér í félaga nema í einu — hann er ekki kristinn maður. Þó að betri vitund hins trúaða manns kunni að segja honum að ótilhlýðilegt sé að ganga til lífstíðarsambands við vantrúaða, fær samt löngunin að ráða í níu tilfellum af hverjum tíu. Andleg hnignun hefst á því augnabliki, sem heitin eru gerð við altarið. Trúarlegur ákafi dofnar og hvert vígi eftir annað er brotið niður, þar til bæði standa hlið við hlið undir hinum dökka fána Satans. Jafnvel í því, sem gert er til hátíðabrigða við brúðkaupið, fer andi heimsins með sigur af hólmi gegn samvizkunni, trúnni og sannleikanum. Á hinu nýja heimili er bænastundin ekki virt. Brúðurin og brúðguminn hafa valið hvort annað og sagt skilið við Jesúm.BS 136.3

    Það getur verið að hinn vantrúaði sýni í fyrstu enga andstöðu í hinu nýja sambandi, en þegar biblíusannleikur er settur fram til athugunar og íhugunar vaknar tilfinningin strax: „Þú giftist mér, vitandi að ég var eins og ég er. Og ég vill ekki láta ónáða mig. Héðan í frá ætti það að vera skilið, að það á að komast hjá samtali um þínar sérskoðanir.” Ef hinn trúaði sýndi einhvern sérstakan áhuga varðandi trú sína, kynni það að virðast sem óvingjarnleiki gagnvart þeim, sem hefur engan áhuga á kristilegri reynslu.BS 137.1

    Hinn trúaði ályktar, að í þessu nýja sambandi verði hann að láta eitthvað undan þeim félaga, sem hann hefur valið. Haldið er hlífiskildi yfir heimsskemmtunum. Í fyrstu er þetta gert með miklum trega, en áhuginn á sannleikanum verður minni og minni og efi og vantrú kemur í stað trúar. Enginn hefði getað ímyndað sér, að sá, sem einu sinni var staðfastur og samvizkusamur trúmaður og helgaður fylgjandi Krists, gæti nokkurn tíma orðið efagjarn og hvikull eins og hann nú er. Hvílík breyting komst á með hinum óviturlegu mægðum!BS 137.2

    Það er hættulegt að mynda heimsleg sambönd. Satan veit það fullvel, að á þeirri stundu, sem til hjúskapar er stofnað, lýkur sögu trúarreynslu og nytsemi ungra manna og kvenna. Þau eru glötuð Kristi. Þau kunna um tíma að sýna viðleitni til þess að lifa kristilegu lífi, en allar tilraunir þeirra eru þá gerðar gegn þungum straumi í öfuga átt. Eitt sinn var það forréttindi þeirra og fögnuður að tala um trú sína og von, en þau verða ófús að minnast á það efni, vitandi það, að sá, sem þau hafa bundið örlög sín við, sýnir því engan áhuga. Af þeim sökum deyr út í hjarta þeirra trú á hinn dýrmæta sannleika og Satan vefur á slóttugan hátt um þau vef efasemdanna.BS 137.3

    „Mega tveir menn verða samferða, nema þeir mæli sér mót?” „Ef tveir af yður verða sammála á jörðunni, mun þeim veitast af föður mínum, sem er á himninum, sérhver sá hlutur, sem þeir kunna að biðja um.” En hversu undarleg sjón! Þegar annar þeirra tveggja, sem svo náið hafa bundizt, iðkar guðrækni sína er hinn kærulaus og afskiptalaus. Þegar annar aðilinn leitar vegarins til eilífs lífs er hinn á hinum breiða vegi til dauðans.BS 137.4

    Hundruð manna hafa fórnað Kristi og himninum með því að giftast óendurfæddum persónum. Getur það verið, að kærleikur og samfélag Krists sé svo lítils virði fyrir þau, að þau vilji heldur samfélag aumra dauðlegra manna? Er himinninn svo lítils metinn, að þau séu fús að hætta á að missa af fögnuði hans fyrir þann, sem hefur engan kaerleika til hins dýrmæta frelsara.BS 137.5

    Svar hins kristna til hins vantrúaða

    Hvað ætti hver kristinn maður að gera, þegar hann kemst í erfiðar aðstæður, sem sýna, hversu fastar trúarmeginreglur hann hefur? Með festu, sem vert væri að líkja eftir, ætti hann að segja skýrt: „Ég er samvizkusamur kristinn maður. Ég trúi, að sjöundi dagur vikunnar sé hvíldardagur Biblíunnar. Trú okkar og meginreglur eru þannig, að þær leiða í gagnstæðar áttir. Við getum ekki verið hamingjusöm saman, því að haldi ég áfram að öðlast meiri og fullkomnari þekkingu á vilja Guðs, verð ég æ meir ólíkur heiminum og snýst meira til líkingar Krists. Ef það heldur áfram, að þú sjáir engan yndisleik í Kristi og þú dregst ekki að sannleikanum, munt þú elska heiminn, sem ég get ekki elskað, og ég mun elska það, sem Guðs er, það sem þú getur ekki elskað. Það, sem andlegt er, skoðast andlega. Án andlegrar skynjunar muntu ekki geta séð kröfur Guðs gagnvart mér eða geta gert þér grein fyrir skyldum mínum gagnvart föður mínum, sem ég þjóna. Þess vegna mun þér finnast, að ég vanræki þig vegna trúarlegrar skyldu minnar. Þú munt ekki verða hamingjusamur. Þú munt verða öfundsjúkur vegna þess kærleika, sem ég sýni Guði, og ég mun verða ein í trú minni. Þegar skoðanir þínar breytast, þegar hjarta þitt svarar kröfum Guðs og þú lærir að elska frelsara minn, er hægt að endurnýja samband okkar.”BS 138.1

    Hinn trúaði færir þannig fórn til Krists sem samvizka hans mælir með og sýnir, að hann metur eilíft líf meira en svo, að hann hætti á að missa það. Honum finnst, að það væri betra að vera ógiftur en að tengjast til lífstíðar þeim, sem kýs heiminn frekar en Jesúm og mundi leiða í burtu frá krossi Krists.

    BS 138.2

    Betra að rifta óviturlegri trúlofun

    Það er aðeins í Kristi sem hægt er að stofna til hjúskapar með öryggi. Sterkustu þættir mannlegs kærleika ættu að vera af guðlegum toga. Aðeins þar sem Kristur ríkir getur verið um að ræða djúpa, sanna og óeigingjarna ást.BS 138.3

    Jafnvel þar sem til trúlofunar hefur verið stofnað án fulls skilnings á lunderni þess, sem þú ætlar að tengjast, skalt þú ekki halda, að trúlofun geri það algerlega nauðsynlegt fyrir þig að gangast undir hjúskaparheitið og tengjast til lífstíðar þeim, sem þú getur ekki elskað og virt. Gættu þín vel á hvern hátt þú gengur til skilyrðisbundinnar trúlofunar. En það er betra, langt um betra, að rifta trúlofun á undan hjúskap en að skilja á eftir eins og margir gera.BS 138.4

    Þú kannt að segja: „Ég hef gefið mitt fyrirheit, ég hef gefið mitt loforð og hvernig get ég riftað þessu?” Ég svara: „Ef þú hefur gefið loforð, sem er gegn Ritningunni, skalt þú fyrir alla muni rifta því án tafar og í auðmýkt frammi fyrir Guði iðrast þess ástaræðis, sem leiddi þig til að gefa loforð í fljótræði. Miklu betra er að taka orð sín í ótta Drottins en að halda loforð sitt og vanheiðra með því skapara sinn.BS 138.5

    Hvert skref í átt til hjúskapar ætti að einkennast af hæversku, einfaldleika, einlægni og ákveðnum ásetningi að þóknast Guði og heiðra hann. Hjúskapurinn hefur áhrif á lífið á eftir, bæði í þessum heimi og í hinum komandi. Einlægur kristinn maður mun ekki leggja nein þau áform, sem Guð getur ekki lagt blessun sína yfir.BS 139.1

    Hjartað þráir mannlegan kærleika, en þessi kærleikur er ekki nógu sterkur eða nógu hreinn eða nógu dýrmætur til að koma í staðinn fyrir kærleika Jesú. Aðeins í frelsara sínum getur eiginkona fundið vísdóm, styrk og náð til þess að horfast í augu við áhyggjur, ábyrgð og sorgir ífsins. Hún ætti að gera hann að styrk sínum og leiðsögn. Konan ætti að gefa sjálfa sig Kristi, áður en hún gefur sig nokkrum jarðneskum vini og ekki stofna til neins þess sambands, sem stríðir gegn því. Þeir, sem vilja finna sanna hamingju, verða að hljóta blessun himnanna yfir allt það, sem þeir eiga, og allt sem þeir hljóta. Það er óhlýðni við Guð, sem fyllir svo mörg hjörtu og heimili örbirgð. Systir mín, þú skalt ekki tengjast þeim, sem er óvinur Guðs, nema þú viljir eiga heim¬ili þar sem skuggarnir hverfa aldrei.

    BS 139.2

    Ráð til þess, sem einn endurfæðist eftir hjúskap

    Sá, sem hefur gengið til hjúskapar meðan hann var óendurfæddur, fær við endurfæðinguna sterkari kvaðir til að vera trúr félaga sínum hversu mjög sem skoðanir þeirra í trúmálum kunna að vera ólíkar. Samt ættu kröfur Guðs að vera settar ofar öllum jarðneskum samböndum, jafnvel þó að það kunni að leiða til reynslu og ofsókna. Með anda kærleika og auðmýktar getur þessi trúmennska haft þau áhrif að ávinna hinn vantrúaða. 1AH, bls. 48, 49, 61-69.BS 139.3

    Larger font
    Smaller font
    Copy
    Print
    Contents