Þá mun boðskapurinn berast með krafti
Jafnvel meðal þeirra sem játa sig vera börn Guðs eru þeir sem eyða meiru en nauðsynlegt er í klæðnað. Við ættum að klæðast snyrtilega og smekklega en, systur mínar, þegar þið kaupið og saumið föt á ykkur og börn ykkar, hugsið þá um það verk í víngarði Drottins sem enn er óunnið. Það er rétt að kaupa gott efni og vanda saumaskapinn. Þetta er hagsýni. En dýrar blúndur eru ekki nauðsynlegar, og að láta þær eftir sér er að eyða fjármunum í eftirlætissemi sem hefði átt að láta í málefnis Guðs.RR 154.3
Það eru ekki föt þín sem gera þig dýrmætan í augum Guðs. Það er hið innra skart, yndisleiki andans, hið vingjarnlega orð og hin umhyggjusama tillitssemi gagnvart öðrum sem Guð metur. Látið ónauðsynlegar blúndur eiga sig, og leggið til hliðar til eflingar málefni Guðs það sem þannig sparast. Lærið lexíu sjálfsafneitunar og kennið börnum ykkar hana. Allt sem hægt er að spara með sjálfsafneitun er nú þörf fyrir í verkinu sem þarf að framkvæma . . . Með því að neita okkur um það sem ekki er nauðsynlegt, getum við átt hlutdeild í hinu mikla starfi Guðs.RR 154.4
Við erum vottar Krists, og við eigum ekki að leyfa veraldlegum áhugaefnum að ná svo miklum tökum á tíma okkar og athygli að við skiptum okkur ekkert af þeim hlutum sem Guð hefur sagt að verði að koma fyrst. Æðri hagsmunir eru í veði . . .RR 155.1
Þegar þeir sem þekkja sannleikann iðka þá sjálfsafneitun sem lögð er fyrir í orði Guðs, mun boðskapurinn berast með krafti. Drottinn mun heyra bænir okkar fyrir afturhvarfi sálna. Guðs fólk mun láta ljós sitt lýsa fram á við, og vantrúaðir sem sjá góðverk þeirra munu lofsyngja okkar himneska föður. Við ættum að tengjast Guði í sjálfsfórnandi hlýðni. - R&H 1. des. 1910.RR 155.2